Kjarninn – Hlaðvarp show

Kjarninn – Hlaðvarp

Summary: Í Hlaðvarpi Kjarnans eru þegar á dagskrá þrír þættir. Þáttur um kúl hluti fer í loftið á þriðjudögum, hið sívinsæla Hismi er á fimmtudögum og Kvikan, þáttur um viðskipti og efnahagsmál, er á dagskrá á föstudögum. Nánari upplýsingar á kjarninn.is.

Join Now to Subscribe to this Podcast

Podcasts:

 Hismið: Áhugaleysi ríkisstjórnarinnar glatað | File Type: audio/mpeg | Duration: 41:46

„Því miður þykir mér við hérna í Reykjavík hafa verið svolítið sein að læra það sem aðrar borgir gerðu fyrir nokkru síðan,“ segir Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og áhugamaður um borgarskipulagsmál. Hann er gestur Hismisins hjá Árna Helgasyni og Grétari Theodórssyni þessa vikuna. Þeir ræða borgarmálin, viðbrögð Gísla í viðtalinu við Sigmund Davíð, Kópavog og margt fleira. „Það er mjög vaxandi hópur hérna á Íslandi sem hefur áhuga á þessum málum og fattar það að borgir hafa svo rosalega mikil áhrif á líf okkar. Sérstaklega hérna á Íslandi: Tveir af hverjum þremur Íslendingum búa hér í korters fjarlægt frá staðnum sem við erum staddir á núna. 80% landsmanna búa í innan við klukkutíma fjarlægð frá miðbæ Reykjavíkur. Svo þetta er næstum því einhverskonar borgríki,“ segir Gísli Marteinn. „Það þýðir auðvitað að öll vandamálin sem við stöndum frammi fyrir, hvort sem það eru umhverfismál, lýðheilsumál eða eitthvað slíkt, þau verða ekki leyst nema á vettvangi borgarinnar. Þess vegna er það algerlega glatað hvað ríkisstjórnir Íslands hafa haft lítinn áhuga á borgarmálum.“ Gísli Marteinn hefur í vetur haft umsjón með Sunnudagsmorgnum á RÚV en heldur utan í haust til að leggja stund á borgarskipulagsfræði í Boston. Þar vonast hann til að geta lært meira um áhugamál sitt svo hann geti miðlað því áfram hérna heima. Hlustaðu á allan þáttinn af Hisminu í spilaranum hér að neðan. Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.

 Skipulagsmálin hið nýja eilífa þrætuepli | File Type: audio/mpeg | Duration: 35:03

Skipulagsmálin í Reykjavík hafa á skömmum tíma orðið að einu erfiðasta pólitíska málinu í borginni. Sitt sýnist hverjum, hvar í flokki sem hann stendur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sérstaklega átt erfitt með að móta sér sýn á þessi mál og borgarfulltrúar flokksins eru ekki sammála um hvort hið nýja aðalskipulag er skref í rétt átt eða ekki. Mörg sjónarmið eru uppi hjá framboðunum en ljóst er að skipulagsmálin eru í brennidepli nú þegar stutt er til kosninga. Ritstjórn Kjarans birtir í dag fyrst kosningahlaðvarpið og ræða þeir Magnús Halldórsson blaðamaður og Þórður Snær Júlíusson ritstjóri um stöðu mála í borginni út frá skipulagsmálunum sérstaklega.  

 Hismið: Bergur Ebbi orðinn hestpirraður á krakkaormum | File Type: audio/mpeg | Duration: 39:43

Bergur Ebbi Benediktsson, lögfræðingur og grínisti, er gestur Hismisins hjá þeim Grétari Theodórssyni og Árna Helgasyni þessa vikuna. Bergur Ebbi er hluti af Mið Ísland-genginu sem hefur staðið fyrir uppistandi í Þjóðleikhúskjallaranum síðan í janúar. „Við vorum að telja þetta saman og við vorum komnir í 58 sýningar,“ segir hann. Það brennur þó meira á honum en bara uppistandið því Bergur Ebbi er orðinn „hestpirraður“ á því að það sé verið að tippla á tám í kringum einhverja krakka sem eru orðin svo góðu vön að það má ekki líða dauð mínúta án þess að athyglin frá málefnunum sé horfin. „Fólk sem starfar í hagsmunabaráttu sem varðar framtíðina hérna, jafnvel þegar við erum komin út í mál eins og umhverfismál og einhver önnur svona lífsnauðsynleg mál til þess að við getum haldið áfram að anda og borða á þessari plánetu, segir: „Við verðum nú að hafa þetta skemmtilegt fyrir krakkana“.“ Krakkarnir, sem Bergur Ebbi segir að séu af Y-kynslóðinni, þekkja ekki hugmyndina um að fara út á vídeóleigu og borga fyrir bíómynd. Þetta er kynslóðin sem hefur fengið allt upp í hendurnar og það sé slæmt fyrir framhaldið. „Það má ekki vera dauð mínúta! Þá fara þau bara að gera eitthvað annað. Við erum farin að tippla á tám í kringum einhverja krakkaorma.“ „Og þegar ástandið er  svona þegar fólk vantreystir stjórnmálaflokkum, það nennir þeim enginn, nema þeir séu ógeðslega skemmtilegir, þeir séu flipp og formaðurinn sé einhver grínisti og allt sé ógeðslega skemmtilegt. Þá ná öfgahópar völdum. Þá ná stórfyrirtæki völdum. Við verðum að vera með einhverja lágmarks athyglisgáfu,“ segir Bergur Ebbi. Hlustaðu á allan þáttinn af Hisminu í spilaranum hér að neðan. Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.

 Hismið: Gunnar Bragi var betri við grillið | File Type: audio/mpeg | Duration: 43:21

„Ég man ekki hvort Gunnar Bragi hafi sjálfur steikt ofan í mig hamborgara en það eru allar líkur á því að ég hafi verslað mjög mikið af honum,“ segir Atli Fannar Bjarkason fjölmiðlamaður en hann er gestur Árna Helgasonar og Grétars Theodórssonar í Hisminu þessa vikuna. „Og miðað við gæðin á borgunum í denn þá held ég að Gunnar Bragi hafi aldrei átt að hætta því að steikja borgara. Mér sýnist svona, þegar ég ber saman, að hann hafi átt heima bak við grillið.“ Atli Fannar hefur undanfarið ár starfað sem aðstoðarmaður Guðmundar Steingrímssonar, þingmanns Bjartrar framtíðar. Áður hafði stjórnaði hann kosningabaráttu flokksins fyrir Alþingiskosningarnar í fyrra. Til umræðu í þættinum er meðal annars skeggvöxtur stjórnmálaleiðtoga. Árni Páll var traustvekjandi með skeggið, Sigmundur Davíð er með lélegan skeggvöxt eins og Atli Fannar, skeggið færi Davíð Oddsyni ekki með krullunum og Össur hefur unnið með skeggið í fjölda ára. Þá er Gísli Marteinn Baldursson og fyrirlesturinn hans um skipulagsmál í vikunni ræddur. Er þar fullyrt að Gísli Marteinn sé loksins frjáls, nú sé hann farinn að tala eins og hann vilji. Hlustaðu á Hismið í spilaranum hér að neðan. Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.

 Hismið: Aldrei verið betra að vera lélegur í mannkynssögunni | File Type: audio/mpeg | Duration: 39:03

Hismismennirnir Grétar Theodórsson og Árni Helgason eru með Kjaftæðispistlahöfundinn Hrafn Jónsson, sem er orðin nokkurs konar samfélagsmiðla-sensation vegna pistla sinna í Kjarnanum á undanförnum mánuðum, í eldhúsinu þennan föstudaginn. Þar opinberar Hrafn að hann sé svo óöruggur að nánast allt lífið valdi honum taugaveiklun, að hann hafi einu sinni verið miklu feitari en hann er núna, en svo hafi hann fattað að hann var að verða þrítugur og fékk taugaáfall. „Ég gat ekki verið bæði þrítugur og feitur. Ég varð að velja.“ Hann fullyrðir einnig að það hafi aldrei verið auðveldara að vera lélegur í mannkynssögunni en akkurat núna. Í Hisminu er auk þess farið yfir morðhrinuna í erlendum dýragörðum, hvenær örbylgjuofnanir muni loksins drepa okkur, áhyggjur um að lágkolvetnablæti eigi eftir að valda því að hálf þjóðin hrynji niður með stíflaðar kransæðar og hvort að Hjallastefnunemendur muni í framtíðinni verða fjöldamorðingjar eftir að hafa „tekið allar tilfinningarnar sínar og sett þær ofan í einhverja kistu.“ Niðurstaðan úr þessum stórkostlegu heimspekilegu pælingum er einföld: „Atvinnubílstjórar munu erfa jörðina.“ Hlustaðu á Hismið í spilaranum hér að neðan. Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.

 Hismið: Árni Páll er með of þykk læri fyrir „meggings“ | File Type: audio/mpeg | Duration: 41:11

Nú eru komnar á markað leggings fyrir karlmenn. Að þessu komst Grétar Theodórsson á ferð sinni um veraldarvefinn. „Ég var að sjá þetta og ég tjúllaðist úr hlátri,“ segir Kristín Soffía Jónsdóttir, gestur þeirra Árna Helgasonar og Grétars, í Hisminu þessa vikuna. Hún er frambjóðandi Samfylkingarinnar í kosningunum í Reykjavík í vor. „Bjarni Ben myndi púlla þetta á svolítíð handsome balletdansara-hátt," segir Árni þegar þau ræða hverjir myndu helst plumma sig í meggings. En hvað með Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar? „Árni Páll... ég veit það ekki. Hann er með svo þykk læri,“ segir Kristín Soffía. En Dagur B. Eggertsson? „Dagur. Bókað. Hann er með miklu nettari læri og líka þetta hár. Það veldur því að hann getur verið í öllu. Ég held að hann gæti verið í trúðagalla en fólk myndi horfa dáleitt á hárið.“ Í Hisminu er fjallað um meggings, sveitarstjórnarkosningar, morgunbjórdrykkju í Leifsstöð og breytta lífshætti ungu kynslóðarinnar sem er að stíga sín fyrstu skref í lífinu utan foreldrahúsa. Hlustaðu á Hismið í spilaranum hér að neðan. Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.

 Hafa skapað milljarða króna á fjórum árum | File Type: audio/mpeg | Duration: 35:24

Nýsköpun sækir sífellt í sig veðrið hér á landi. Fjölmörg fyrirtæki slíta barnsskónum í Innovation House á Eiðistorgi og freista þess að skapa verðmæti úr hugmynd eigenda sinna. Aðstaðan er hugsuð sérstaklega fyrir sprotafyrirtæki. Þar starfar Stefán Þór Helgason hjá Klak/Innovit. Hann er jafnframt verkefnastjóri Gulleggsins. Stefán Þór er gestur Hismisins hjá Árna Helgasyni og Grétari Theodórsyni þessa vikuna. Fjölmörg fyrirtæki hafa orðið til í Gullegginu, til dæmis Clara sem tók þátt árið 2008 var selt á milljarð króna í fyrra. „Annað dæmi er Meniga sem kom 2009, eftir hrunið. Það er metið á tvo og hálfan milljarð í dag. Á fjórum árum verður hugmynd að fyrirtæki sem er milljarða virði,“ segir Stefán Þór. Árni, Grétar og Stefán ræða starf frumkvöðla, þá sem náð hafa langt í þeim geira og hvort þingflokkur Framsóknarflokksins ætti ekki að skrá sig í Gulleggið með hugmyndir sínar. „Þingflokkurinn ætti nú bara að skrá sig sem heild í Gulleggið og koma með góðar hugmyndir. Við tökum vel á móti þeim,“ segir Stefán en bendir þó á að erfitt sé fyrir góðar hugmyndir að ná flugi. „Níu af hverjum tíu lenda í gröfinni áður en langt er komið, það er tölfræðin sem miðað er við.“ Hlustaðu á Hismið í spilaranum hér að neðan eða gerstu áskrifandi með Podcast-spilaranum þínum hér.

 Guðni Ágústsson eyðilagði plankið | File Type: audio/mpeg | Duration: 39:58

„Battlefield Earth með John Travolta eyðilagði líf mitt,“ segir Gunnar Hrafn Jónsson, fréttamaður á RÚV og ríkjandi fyndnasti maður Íslands, þegar gamlar slæmar kvikmyndir eru rifjaðar upp í Hismi Árna Helgasonar og Grétars Theodórssonar. Á lista IMDB yfir þær myndir sem hljóta verstu einkunnirnar er til dæmis myndin með Travolta. „Ég var að vinna í Háskólabíói við að hleypa út. Þetta var eins og í Clockwork Orange því það var endurtekningin sem var að gera mig brjálaðan. Ég sá endinn á Battlefield Earth 50 sinnum,“ segir Gunnar Hrafn. Kvikmyndir og nýafstaðnar verðlaunahátíðir í Hollywood eru til umræðu í þættinum, þar á meðal ofurselfie-mynd Ellen DeGeneres sem hún tók á Óskarsverðlaunahátíðinni um síðustu helgi. Gunnar Hrafn spyr hvort „selfie-æðið“ sé ekki bara búið. „Hver er að planka í dag? Mér finnst allt svona deyja um leið og einhverjar stofnanir fara að taka þátt í því. Ég reyndi að koma í veg fyrir Harlem Shake á RÚV.“   If only Bradley's arm was longer. Best photo ever. #oscars pic.twitter.com/C9U5NOtGap — Ellen DeGeneres (@TheEllenShow) March 3, 2014   „En ég veit hvenær plankið fór endanlega yfir um. Það var þegar Guðni Ágústsson plankaði á garðstól, alveg þráðbeinn og það virtist vera mjög óþægilegt. Ég dáðist af þeirri mynd,“ segir Gunnar Hrafn. Hlustaðu á Hismið í spilaranum hér að neðan eða gerstu áskrifandi með Podcast-spilaranum þínum hér.

 „Ísland not got þýðendur“ | File Type: audio/mpeg | Duration: 37:48

Íslenskt raunveruleikasjónvarp er ekki að virka. Þetta er niðurstaða þeirra Árna Helgasonar, Grétars Theodórssonar og gestar þeirra í Hisminu, Ara Eldjárn. „Þetta er of krúttlegt,“ segir Árni og bætir svo við að þær aðstæður munu varla koma upp að Rikka gagnrýni rétt keppenda í matreiðslukeppni svo harðlega að viðkomandi fái aldrei vinnu á ný. Ari sér hins vegar annað athugavert við íslenska raunveruleikaþætti því þeir hafa allir erlend nöfn í bland við íslensk. Tveir þættir sem eru vinsælir núna heita „Ísland got talent“ og „Biggest Looser Ísland“. „Þeir heita báðir nöfnum sem eru tvö orð á ensku og svo Ísland á íslensku,“ segir Ari og Árni tekur í sama streng og kallar þetta íslenskulegt hryðjuverk. „Ísland not got þýðendur!“ Þeir félagar ræða raunveruleikaþættina, fjarvist íslenska Survivor, „holiday in the sun“ og penu góðborgarabyltinguna á Austurvelli í Hismi dagsins. Hlustaðu á Hismið í spilaranum hér að neðan eða gerstu áskrifandi með Podcast-spilaranum þínum hér.  

 Sigmundur Davíð þriðji kynþokkafyllsti maðurinn | File Type: audio/mpeg | Duration: 33:41

„Ég var að fletta honum [Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni] upp um daginn á Tímarit.is. Honum einfaldlega bregður ekki fyrir á tíunda áratugnum. Hann var hreinlega ekki til,“ segir Konráð Jónsson, lögmaður og sérlegur „auka-lækari“, um það þegar hann rifjaði upp að Sigmundur Davíð og Gísli Marteinn Baldursson hafi verið samstarfsmenn í Kastljósinu fyrir um áratug. Konráð er gestur Hismisins hjá Árna Helgasyni og Grétari Theodórssyni í dag. „Árið 2004 er hann kominn í Kastljósið og haldið þið ekki að hann sé þriðji kynþokkafyllsti maður landsins!“ Þeir Árni, Grétar og Konráð fara yfir helstu mál líðandi stundar í þættinum. Konráð skrifar ekki aðeins reglulega pistla í Kjarnann heldur hefur hann vakið athygli fyrir að vera eini Íslendingurinn sem getur smellt tveimur lækum á Facebook-færslur. „Ég var kominn í þá aðstöðu að vera búinn að gengisfella lækin mín á Facebook. Ég læka eiginlega flest komment sem ég fæ á statusana mína og er mjög gjarn á að læka Facebook-færslur,“ segir Konráð Jónsson, lögmaður og sérlegur „auka-lækari“. Hann er gestur Hismisins hjá Árna Helgasyni og Grétari Theodórssyni í í dag. „Eina lausnin á þessu vandamáli var að stofna annan Facebook-reikning, sem myndi heita Konráð Jónsson Aukalæk. Það er kannski einu sinni í viku sem ég spæsi aukalæki á færslur.“ Hlustaðu á Hismið í spilaranum hér að neðan eða gerstu áskrifandi með Podcast-spilaranum þínum hér.

 Afþakkaði hamborgara til að drulla yfir atvinnulífið | File Type: audio/mpeg | Duration: 45:23

Á Texasborgurum eru nú nýir hamborgarar á matseðli og bera þeir nöfn forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar. Magnús Ingi Magnússon, meistarakokkur á Texasborgurum, boðaði þá Sigmund og Bjarna til að vígja nýju borgarana en þeir mættu hvorugir. Sigmundur Davíð þakkaði þó kærlega fyrir boðið. Hann var á leið á viðskiptaþing að drulla yfir atvinnulífið. Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og pistlahöfundur, er gestur Hismis Árna Helgasonar og Grétars Theodórssonar þessa vikuna. Hann ritar nú pistlaröðina „Þegar ég var átta ára undir stjórn Jaruzelskis“ á vefsíðu sinni. Þar fjallar hann um hvernig var að alast upp í kommúnistaríkinu Póllandi. „Þegar ég ber upp sumar af þessum minningum við foreldra mína þá vilja þau meina að þetta sé ekki sami sannleikur og þau muna,“ segir Pawel. „En ég skrifa allavega það sem ég man og það er gaman að koma því frá sér. En það er samt gaman að búa að þessu og ég held að þetta muni skilgreinina mig dálítið mikið. Hefði amma mín til dæmis skrifað svona pistlaröð hefði hún heitið „Átta ára undir stjórn Hitlers“. Hlustaðu á Hismið í spilaranum hér að neðan eða gerstu áskrifandi með Podcast-spilaranum þínum hér.

 Hvenær fara krúttin að keyra strætó? | File Type: audio/mpeg | Duration: 29:53

„Það má ekki gera lítið úr áhrifum Besta flokksins. Á kjörtímabilinu átti Sjálfstæðisflokkurinn svolítið erfitt með að feta sig í því hlutverki,“ segir Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem er gestur Hismisins hjá þeim Árna Helgasyni og Grétari Theodórsyni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með sögulega lítið fylgi í Reykjavík í skoðanakönnunum umdanfarið. Kosið verður til sveitastjórna í vor. „Þessi gamli rótgróni flokkur vissi hvernig átti að vinna vinnuna en svo kom eitthvað fyrirbæri sem við vorum svolítið lengi að finna út úr hvernig ætti að ráða við. Borgarstjórinn er svolítið eins og teflon. Þegar hann vildi vera pólitíkus og gera vel fékk hann hrós fyrir það en þegar hann klúðraði einhverju þá var hann ekkert borgarstjóri,“ segir Hildur. Hlustaðu á Hismið í spilaranum hér að neðan eða gerstu áskrifandi með Podcast-spilaranum þínum hér.

 Plötufyrirtækin berjast við að aðlagast útgáfu á vefnum | File Type: audio/mpeg | Duration: 38:35

Stærstu plötufyrirtækin í heiminum í dag eru að stokka upp rekstri sínum til að geta aðlagast betur aukinni tónlistarútgáfu á vefnum. Bjarki Sigurðsson, einn meðlima hljómsveitarinnar Mono Town, segir í spjalli við þá Árna Helgason og Grétar Theodórsson að nú standi yfir gríðarleg barátta stærstu útgefendanna um hylli netverja. Mono Town er ein vinsælasta hljómsveit landsins um þessar mundir og sátu í þriðja sæti á vinsældalista Rásar 2 um síðustu helgi með lagið Peacemaker. Hljómsveitin fór óhefðbundnar leiðir í útgáfu á sinni fyrstu breiðskífu, sem kom út á mánudaginn, því þeir ákváðu að gefa frönsku vefútgáfufyrirtæki útgáfuréttinn á vefnum. „Tímasetningin fyrir okkur, menn á fertugsaldri, að reyna að koma sér inn í poppheiminn vinnur ekki með okkur. En þetta gæti samt unnið með okkur af því að við förum þessa leið,“ segir Bjarki. Tvö lög voru gefin út fyrir jól á vef Deezer og viðtökurnar voru gríðarlega góðar. Þá fjallaði Kjarninn um útgáfuna. Síðan hefur margt gerst. „Okkur tókst að ná í tæpa milljón niðurhala á tveimur mánuðum sem þykir ansi gott, sérstaklega í ljósi þess að það veit enginn hverjir við erum.“ Hlustaðu á Hismið í spilaranum hér að neðan eða gerstu áskrifandi með Podcast-spilaranum þínum hér.

 Björn Bragi hefur sagt þá betri | File Type: audio/mpeg | Duration: 31:10

Jóhann Alfreð Kristinsson er gestur Árna Helgasonar og Grétars Theodórssonar í Hisminu í dag. Þeir fara yfir fréttir vikunnar sem nú er að líða á léttu nótunum. Jóhann Alfreð stendur nú að uppistandi í Leikhúskjallaranum ásamt félögum sínum í Mið Ísland. Ásamt því sinnir hann veislustjórn og uppákomum á þorrablótum. „Seasonið er svolítið núna, janúar fram á vor. Þetta er svona aðal tíminn. Svo um leið og 1. júní kemur þá dettur allt í dúnalogn,“ segir Jóhann Alfreð um gríntímabilið. Þá er rætt um ummæli Björns Braga Arnarssonar í EM-stofunni á RÚV þegar hann líkti íslenska landsliðinu í handbolta við þýska nasista. Björn Bragi er sem kunnugt er í Mið Ísland hópnum. „Ég hef heyrt hann segja betri brandara,“ segir Jóhann Alferð um félaga sinn. Hlustaðu á Hismið í spilaranum hér að neðan eða gerstu áskrifandi með Podcast-spilaranum þínum hér.

 Myndi maður taka upp Sveins Andra-lúkkið? | File Type: audio/mpeg | Duration: 37:57

Árni Helgason og Grétar Theodórsson fara yfir málefni líðandi stundar í Hisminu. Til umræðu þessa vikuna er þáttaka íslenska karlalandsliðsins í handbolta á Evrópumeistaramótinu í Danmörku, útlitsleg líkindi Sveins Andra Sveinssonar lögmanns og Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra og framhjáhaldsmál þjóðhöfðingja erlendis. Þá fjalla þeir einnig um pólitíkina og sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara í sumar. „Hversu margir munu láta lífið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi?“ spyr Árni og rekur málið sem skók bæjarstjórn Kópavogs á dögunum þegar samþykkt var að veita háar fjárhæðir til verkefna sem virðast ekki hafa verið skoðuð ítarlega. Og um líkindi ráðherrans og lögmannsins segja þeir: „Ef þú ert ráðherra og ert að taka upp nýtt lúkk; myndir þú taka upp Sveins Andra-lúkkið?“ spyr Árni. „Maður hefur ekki tekið eftir þessu áður.“ Gunnar Bragi hafi verið með svona „nýkominn á mölina-lúkk“ en sé núna kominn með skegg og gleraugu. Hlustaðu á Hismið í spilaranum hér að neðan eða gerstu áskrifandi með Podcast-spilaranum þínum hér.

Comments

Login or signup comment.