Hismið: Bergur Ebbi orðinn hestpirraður á krakkaormum




Kjarninn – Hlaðvarp show

Summary: Bergur Ebbi Benediktsson, lögfræðingur og grínisti, er gestur Hismisins hjá þeim Grétari Theodórssyni og Árna Helgasyni þessa vikuna. Bergur Ebbi er hluti af Mið Ísland-genginu sem hefur staðið fyrir uppistandi í Þjóðleikhúskjallaranum síðan í janúar. „Við vorum að telja þetta saman og við vorum komnir í 58 sýningar,“ segir hann. Það brennur þó meira á honum en bara uppistandið því Bergur Ebbi er orðinn „hestpirraður“ á því að það sé verið að tippla á tám í kringum einhverja krakka sem eru orðin svo góðu vön að það má ekki líða dauð mínúta án þess að athyglin frá málefnunum sé horfin. „Fólk sem starfar í hagsmunabaráttu sem varðar framtíðina hérna, jafnvel þegar við erum komin út í mál eins og umhverfismál og einhver önnur svona lífsnauðsynleg mál til þess að við getum haldið áfram að anda og borða á þessari plánetu, segir: „Við verðum nú að hafa þetta skemmtilegt fyrir krakkana“.“ Krakkarnir, sem Bergur Ebbi segir að séu af Y-kynslóðinni, þekkja ekki hugmyndina um að fara út á vídeóleigu og borga fyrir bíómynd. Þetta er kynslóðin sem hefur fengið allt upp í hendurnar og það sé slæmt fyrir framhaldið. „Það má ekki vera dauð mínúta! Þá fara þau bara að gera eitthvað annað. Við erum farin að tippla á tám í kringum einhverja krakkaorma.“ „Og þegar ástandið er  svona þegar fólk vantreystir stjórnmálaflokkum, það nennir þeim enginn, nema þeir séu ógeðslega skemmtilegir, þeir séu flipp og formaðurinn sé einhver grínisti og allt sé ógeðslega skemmtilegt. Þá ná öfgahópar völdum. Þá ná stórfyrirtæki völdum. Við verðum að vera með einhverja lágmarks athyglisgáfu,“ segir Bergur Ebbi. Hlustaðu á allan þáttinn af Hisminu í spilaranum hér að neðan. Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.