Kjarninn – Hlaðvarp show

Kjarninn – Hlaðvarp

Summary: Í Hlaðvarpi Kjarnans eru þegar á dagskrá þrír þættir. Þáttur um kúl hluti fer í loftið á þriðjudögum, hið sívinsæla Hismi er á fimmtudögum og Kvikan, þáttur um viðskipti og efnahagsmál, er á dagskrá á föstudögum. Nánari upplýsingar á kjarninn.is.

Join Now to Subscribe to this Podcast

Podcasts:

 C-riðill: Jafn og mjög erfiður riðill að ráða í | File Type: audio/mpeg | Duration: 28:51

Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður á RÚV, og Víðir Sigurðsson, íþróttablaðamaður á Morgunblaðinu, eru gestir Adolfs Inga í þriðja þætti HM-hlaðvarps Kjarnans, Á hliðarlínunni. Þar spá þremenningarnir í C-riðilinn á HM, en þar eiga sæti lið Kólumbíu, Grikklands, Fílabeinsstrandarinnar og Japan. Félagarnir eru sammála um að C-riðillinn sé sá riðill á HM sem hvar erfiðast sé að spá fyrir um úrslit, liðin séu jöfn og eiginlega öll jafn líkleg til að komast áfram í sextán liða úrslit heimsmeistarakeppninnar í fótbolta. Þá segja sérfræðingarnir álit sitt á því hvaða leikmaður á HM heiti harðasta nafninu. Hlustaðu á HM-hlaðvarp Kjarnans, Á hliðarlínunni með Adolfi Inga, hér að neðan.

 B-riðill: Tvö bestu lið heims mætast í fyrsta leik | File Type: audio/mpeg | Duration: 32:23

Þeir Willum Þór Þórsson, alþingismaður og knattspyrnuþjálfari, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, eru á hliðarlínunni með Adolfi Inga Erlingssyni í öðrum þætti HM-hlaðvarps Kjarnans. Þar velta félagarnir vöngum yfir B-riðli heimsmeistarakeppninnar í fótbolta, en riðilinn skipa lið Spánar, Hollands, Sjíle og Ástralíu. Þremenningarnir hlakka mikið til stórleiks Hollendinga og Spánverja, sem verður endurtekning á úrslitaleik HM fyrir fjórum árum, þegar Spánverjar tryggðu sér heimsmeistaratitilinn. Dolli, Willum og Þórður eru helst á því að risaliðin tvö séu líklegust til þess að komast upp úr B-riðli í sextán liða úrslitin. Hlustaðu á fyrsta þáttinn af Á hliðarlínunni með Adolfi Inga, hér að neðan

 A-riðill á HM: Brassar og Króatar líklegastir áfram | File Type: audio/mpeg | Duration: 30:43

Þeir Illugi Jökulsson og Magnús Halldórsson voru á hliðarlínunni með Adolfi Inga Erlingssyni, í fyrsta þætti HM-hlaðvarps Kjarnans, og veltu fyrir sér stöðunni í A-riðli heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Riðilinn skipa lið Brasilíu, Króatíu, Mexíkó og Kamerún. Þremenningarnir eru helst á því að Brasilía sigri næsta örugglega riðilinn, og spá því að Króatía fylgi Brössunum eftir í sextán liða úrslitin. Hlustaðu á fyrsta þáttinn af Á hliðarlínunni með Adolfi Inga, hér að neðan.

 Sögulegar kosningar | File Type: audio/mpeg | Duration: 22:00

Línur eru teknar að skýrast í kosningabaráttunni í Reykjavík, sé miðað við skoðanakannanir og kosningaspá Kjarnans og doktors Baldurs Héðinssonar. Þegar tveir dagar eru til kosninga, er Dagur B. Eggertsson með pálmann í höndunum, en fylgi Samfylkingarinnar mælist nú með 31,9 prósent fylgi á meðan Björt framtíð hefur verið að sveiflast í skoðanakönnunum. Sjálfstæðisflokkurinn er heillum horfinn í sögulegum samanburði.

 Meirihlutinn bætir við sig | File Type: audio/mpeg | Duration: 27:23

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, verði næsti borgarstjóri í Reykjavík. Nú, þegar níu dagar eru til kosninga, mælist Samfylkingin með sterka stöðu í borgarstjórn, sex borgarfulltrúa í sumum könnunum, og Björt framtíð með fjóra. Meirihlutinn heldur því ekki aðeins, heldur virðist vera að styrkjast í sessi. Á sama tíma eru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn í bullandi vandræðum.

 Hismið: „Hey, eigum við að hafa flugvöll þarna?“ | File Type: audio/mpeg | Duration: 45:55

Dóri DNA er gestur Hismisins þessa vikuna en hann á afmæli í dag. Hann er hins vegar að mæta í annað afmæli í kvöld þegar uppistandshópurinn Mið Ísland þar sem Dóri er meðlimur heldur upp á fimm ára starfsafmæli í Þjóðleikhúskjallaranum. Árni Helgason og Grétar Theodórsson fóru þó engum silkihönskum um Dóra þrátt fyrir afmælið og ræddu stóru málin. „Ég spyr mig: Ef það væri ekki flugvöllur í Vatnsmýrinni; þetta væri bara autt byggingaland, og einhver myndi segja: „Hey, eigum við að hafa flugvöll þarna?“ Yrði það samþykkt bara?“ spyr Dóri og uppsker hlátur þáttastjórnenda. „Síðan er ég svolítið hissa á því að það sé þessi mikli stuðningur við þennan flugvöll, að allar þessa undirskriftir hafi safnast og á öllum skoðanakönnunum sem segja að Reykvíkingar vilji hafa flugvöllinn áfram. En afhverju eru þá Framsókn og flugvallavinir að mælast undir fimm prósentum?“ Kosningarnar, áhugaleysið á þeim og aðgengi barna að hestanámskeiðum eru til umræðu. Þá er fjallað um pólitískar skýringar ársins og tilnefnd skýring Ólafs F. Magnússonar á því hvers vegna enga mosku ætti að byggja í Reykjavík. „Víða er langt seilst,“ segir Dóri enda kemur Tyrkjaránið þar við sögu. Hismi Árna og Grétars fer nú í sumarfrí en snýr aftur í ágúst (+/- þrjár vikur). Hlustaðu á allan þáttinn af Hisminu í spilaranum hér að neðan.Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.

 Stál í stál í Kraganum | File Type: audio/mpeg | Duration: 25:59

Í Kraganum er mikil pólitísk spenna, ekki síst í stærsta sveitarfélaginu, Kópavogi. Þetta næst stærsta sveitarfélag landsins, með ríflega 32 þúsund íbúa, stendur frammi fyrir miklum pólitískum tíðindum ef fram heldur sem horfir í könnunum, en samkvæmt þeim er meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins fallinn. Björt framtíð virðist vera að festa rætur í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og í sóknarhug þegar aðeins tvær vikur eru til kosninga. Ritstjórn Kjarnans fer yfir stöðuna í Kraganum í aðdraganda kosninga.

 Hismið: Fólk að krydda úr „iðnaðardúnkum“ | File Type: audio/mpeg | Duration: 44:21

Stígur Helgason, fyrrverandi blaðamaður og starfsmaður Plain Vanilla, fyrirtækisins sem heldur úti Quiz Up leiknum, er gestur hlaðvarpsþáttarins Hismisins að þessu sinni og er óhætt að segja að rætt sé um margt af því sem fyrirfinnst milli himins og jarðar. Stígur fræðir umsjónarmennina, Árna Helgason og Grétar Theodórsson, um samfélagið í kringum spurningaleikinn Quiz Up auk þess að ræða um það sem stendur upp úr í fjölmiðlaumræðu hér á landi, meðal annars matreiðsluþætti, og ýmislegt fleira. Þar á meðal dramatískar ræður afreksmanna í íþróttum. „Eiður Smári er nú ákveðinn frumkvöðull í þessu hér á landi, er það ekki?“ segir Stígur. Hlustaðu á allan þáttinn af Hisminu í spilaranum hér að neðan.Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.

 Titringur um allt land | File Type: audio/mpeg | Duration: 33:34

Hagsmunir sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðsins eru oft ansi ólíkir eftir landshlutum og aðstæðum. Kjarninn heldur áfram kosningaumfjöllun sinni og skoðar nú sérstaklega pólitíska stöðu á landinu utan höfuðborgarsvæðisins. Farið er yfir helstu átakalínurnar og hvernig þær hafa áhrif á stjórnmálin í einstökum landshlutum. Atvinnumál eru helsta kosninga­mál þessara sveitarfélaga, í víðasta skilningi, enda fjárhagsstaða víða erfið.  

 Kjarnauppgjörið: Oddvitaleysi tryggir fylgisaukningu | File Type: audio/mpeg | Duration: 41:07

Ritstjórn Kjarnans fer nú í fyrsta sinn yfir helstu fréttir vikunnar í nýjum hlaðvarpsþætti, Kjarnauppgjörinu. Það mun héðan í frá vera fastur liður í útgáfu Kjarnans og birtast á kjarninn.is í hádeginu á laugardögum. Í þessum fyrsta þætti fara Ægir Þór Eysteinsson, Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson yfir vandræðagang í framboðsmálum Framsóknarflokksins sem hefur skilað honum miklu meira fylgi en þegar flokkurinn hafði oddvita, kosningaspá Kjarnans, 1. maí ræður, skuldaniðurfellingar, húsnæðismál og ýmislegt fleira. Auk þess er rýnt í helstu efnistök nýjasta Kjarnans. Í þessari viku voru þau könnun Björns Gíslasonar sem sýndi meðal annars að háskólafólk hefði orðið fyrir hótunum frá valdafólki vegna þátttöku í umræðu, sátt í dómsmáli vegna sölu á fjölmiðlum út úr 365 ehf. þegar félagið var gjaldþrota,  ástandið í Úkraínu og veðrið. Stórskemmtilegt og tæpitungulaust. Hlustaðu á allan þáttinn af Kjarnauppgjörinu í spilaranum hér að neðan. Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.

 Enginn glitz og glamúr að skemmta | File Type: audio/mpeg | Duration: 41:38

„Líf skemmtikraftsins er kannski aðeins öðruvísi hjá mönnum sem eru ekki giftir. Þeir fara kannski meira á barinn og skemmta sér og reyna að freista gæfunnar einhvernveginn. En ég hef ekkert erindi í það, alls ekki. Þetta fer svolítið eftir því hversu trúir menn eru sínum konum.“ Sólmundur Hólm Sólmundarson, viðskiptafræðingur og skemmtikraftur, er gestur Hismisins þessa vikuna. Hann ræðir þar fordóma í garð minnihlutahópa, Gylfa Ægisson, körfubolta og margt fleira. Donald Sterling hefur verið sektaður og bannaður frá körfubolta í Bandaríkjunum. Hann er eigandi Los Angeles Clippers-liðsins en viðhafði niðrandi ummæli um blökkumenn á upptöku sem fór eins og eldur í sinu um internetið á dögunum. „Það eru allskonar skrítin komment sem falla og þau fá mikinn hljómgrunn á netinu,“ segir Sólmundur þegar hann vekur athygli á því hvernig svona ummæli fara misjafnlega ofan í fólk. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sterling viðhefur rasisma í verki eða orði en Hismismönnum þykir áhugavert að upptakan núna skuli fá svo mikla athygli. Sólmundur bendir á að nú séu upplýsingarnar aðgengilegri: „Ef þú skítur á þig í dag, þá er það miklu meira vesen en það var fyrir tilkomu netsins.“ Hlustaðu á allan þáttinn af Hisminu í spilaranum hér að neðan.Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.

 Háskólamenn hræddir við valdafólk | File Type: audio/mpeg | Duration: 23:25

Sjötti hver háskólamaður segist hafa komið sér hjá því að tjá sig við fjölmiðla vegna ótta við viðbrögð valdafólks úr stjórnmála- og efnahagslífi. Þá telur meirihluti aðspurðra háskólamanna að akademísku frelsi fræði- og vísindamanna á Íslandi stafi ógn af gagnrýni eða hótunum frá valdafólki í stjórnmálum og efnahags- og atvinnulífi. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar um viðhorf háskólafólks til þátttöku í opinberri umræðu á vettvangi fjölmiðla. Ádrepa í rannsóknarskýrslu Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis hefur að geyma ádrepu á störf háskólasamfélagsins í aðdraganda falls íslenska bankakerfisins. Þar er háskólafólki legið á hálsi að hafa ekki haft uppi næga gagnrýni á ástand mála en jafnframt er þó bent á að aðstæður til gagnrýninnar umræðu í samfélaginu hafi verið bágbornar. Sérstök þingmannanefnd, sem skipuð var fulltrúum allra flokka sem áttu sæti á Alþingi á síðasta kjörtímabili, vann sjálf skýrslu um rannsóknarskýrsluna. Í meginniðurstöðum og ályktunum þingnefndarinnar er sérstaklega vikið að samfélags­umræðu á Íslandi og bent á að góð stjórnmálaumræða náist fram „með því að láta andstæð sjónarmið mætast þar sem byggt er á staðreyndum og málin eru krufin til mergjar. Íslensk stjórnmál hafa ekki náð að þroskast nægilega í samræmi við það“. Í skýrslunni er jafnframt að finna hvatningu til háskólafólks „af ólíkum fræðasviðum til að taka þátt í opinberri umræðu og styrkja með því tengsl fræðasamfélagsins, atvinnulífsins og hins almenna borgara“. Hvatningin til háskólafólks byggist á þeirri hugmynd að þessi hópur hafi fram að færa einhverja þekkingu eða reynslu, umfram aðra borgara, sem nýst geti í hinni lýðræðis­legu umræðu. Sú þekking eða reynsla getur jafnvel varpað nýju ljósi á ýmis málefni í samfélaginu og stuðlað að því að rökstuddar og yfirvegaðar ákvarðanir séu teknar í mikil­vægum samfélagsmálum. Hvatningin hvílir líka á þeirri hugmynd að innan háskólanna starfi fólk sem hafi það að markmiði að afla nýrrar þekkingar eða leita „sannleikans“, eins og það er stundum nefnt, með aðferðum vísindanna sem byggjast á gagnrýninni hugsun. Þetta er örstutt útgáfa af ítarlegri úttekt um rannsókn Björns Gíslasonar. Lestu hana í heild sinni í nýjasta Kjarnanum hér.

 Erfiðir tímar fram undan | File Type: audio/mpeg | Duration: 35:26

Húsnæðismálin í Reykjavík eru mikið hitamál um þessar mundir. Leiguverð hefur hækkað mikið undanfarin misseri, en tæplega fjórðungur heimila á Íslandi er nú í leiguhúsnæði. Fasteignaverð hefur hækkað mikið, sérstaklega undanfarna mánuði. Hvernig getur fólk sem er að koma út á markað komið þaki yfir höfuðið? Þessi spurning brennur á tug­þúsundum kjósenda í aðdraganda sveitarstjórnar­kosninganna sem fara fram 31. maí næstkomandi.

 Hismið: Hamborgaratilboð og Guðni Ágústsson | File Type: audio/mpeg | Duration: 43:45

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir laganemi og humaræta er gestur Hismisins þessa vikuna. Hún er svo prúður neytandi að hún skilaði ekki einu sinni vefjunni sinni þegar hún fann vír í henni. „Ég hef líka fengið járnsmið. Þá fór ég reyndar[...]en þá var járnsmiður bakaður ofan í brauðinu mínu. Þetta var hamborgarabrauð,“ segir Áslaug. Tilefni umræðunnar er frétt í vikunni um mjög reiðan mann sem skilaði hamborgaratilboði sem hann var óánægður með. Í þætti dagsins er margt annað til umræðu en vond hamborgaratilboð og reiðir neytendur. Þeir Árni Helgason og Grétar Theodórsson ræða meðal annars við viðmælanda sinn um Guðna Ágústsson, innanlandsflug, sódastream-tæki, nýjan hægri flokk og hvort hinn nýi sjónvarpsmarkaður Mikligarður sé snilld eða ekki. Að sjálfsögðu er líka snert á humri og hvítvíni og hvort maður megi ekki alveg segja mjög klúra brandara í einkaveislum. Að venju er lífstílshegðun Árna krufin og Grétar slengir meðal annars fram þeirri fullyrðingu að „það eru allir undir 35 ára, nema Árni Helgason, hættir að horfa á línulega dagskrá í sjónvarpi“. Árni gengst við þessu. „Ég læt bara Ara Edwald velja þetta fyrir mig.“ Hlustaðu á allan þáttinn af Hisminu í spilaranum hér að neðan.Áskrift af Hlaðvarpi Kjarnans í gegnum iTunes.

 Vannýtt dauðafæri | File Type: audio/mpeg | Duration: 28:09

Ægir Þór Eysteinsson blaða­maður og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, ræða skóla- og dagvistunarmál og áherslur framboðanna í þeim efnum fyrir komandi sveitastjórnarkosningar 31. maí næstkomandi. Framboðin virðast heldur hugmyndasnauð varðandi ófremdarástandið sem ríkir í dagvistunarmálum. Þá vekur furðu að minni framboðin nýti sér ekki dauðafærið og komi fram með raunhæfar lausnir. Vinstrihreyfingin grænt framboð birti reyndar stefnuskrá sína skömmu eftir að upptökum á þættinum lauk og þar komu fram sóknaráætlanir í skóla- og dagvistunarmálum.

Comments

Login or signup comment.